Sæbjörn Steinke ræddi í vikunni við Hallgrím Jónasson, þjálfara KA, og gerði upp nýliðið tímabil með honum. KA varð bikarmeistari í fyrsta sinn í sögu félagsins og endaði í 7. sæti Bestu deildarinnar. Stigasöfnunin var lítil í byrjun móts og hugsuðu einhverjir hvort KA þyrfti hreinlega að skipta um þjálfara. Það var ekki gert og gengi liðsins batnaði til muna, við tók kafli þar sem KA tapaði ekki í ellefu leikjum í röð og var nálægt því að ná sæti í efri hluta deildarinnar.